Blágrýti (basalt) er algengasta gosberg jarðar, það myndar allan hafsbotninn og um 90% af Íslandi. Hamrabeltin í fjöllum Aust- og Vestfjarða eru forn blágrýtishraun, sennilega úr stórgosum eins og Skaftárelda-gosinu 1783.
Gabbró er grófkornótt djúbergsafbrigði basalts, nefnt eftir borg nokkurri á Ítalíu. Hér á landi tengist bergtegundin fornum eldstöðvum sem rofist hafa niður í rætur.
Grágrýti er grófkornað hraun, oftast grátt eða grásvart að lit og er yfirleitt dálítið frauðkennt. Það myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum.
Líparít (ljósgrýti, rhyólít) er dulkornótt gosberg sem telst með vissum hætti til sérkenna Íslands því það finnst óvíða á úthafseyjum nema hér. Nafnið er dregið af eynni Lípari á Ítalíu en nú er algengara að nefna bergið “rhyólít”.
Marmari er myndbreyttur kalksteinn, til orðinn við hitun og umkristöllun kalkskelja (CaCO3) ýmissa fornra sjávardýra. Kornastærðin vex með myndbreytingarstigi og í fínkorna marmara má oft sjá einstaka steingervinga. “Óhreinindi” í kalksetinu koma fram í mismunandi litbrigðum marmara.